Skip to content

Að verða betri spunaspilari

Við höfum skrifað nokkuð margar greinar fyrir stjórnendur og reynt að auðvelda þeim lífið við stjórnunina. En hvað með leikmennina? Spunaspil eru jú leikur þar sem þátttakendurnir eru fleiri en stjórnandinn og góðir leikmenn geta gert sæmilegt ævintýri að hinni mestu skemmtun. Hvernig verður maður hins vegar betri leikmaður? Hér eru nokkrar hugleiðingar. 

Við fæðumst ekki með hæfileikann til að spila spunaspil og fyrir marga tekur það þó nokkurn tíma að átta sig á hvernig maður verði góður spunaspilari. Eftir því sem bætist í spunaspilareynsluna fer maður að kveikja á perunni og finnst jafnvel margt af því sem maður hefur uppgötvað liggja í augum uppi. En var það jafn augljóst þegar maður var að byrja?

Persónusköpun

Það sem heillar eflaust flesta spunaspilara er tækifærið til að búa til og spila persónu í öðrum heimi. Það er í senn skemmtilegt og spennandi að sjá hvernig manni reiðir af, með aðra hæfileika, önnur tækifæri og í aðstæðum sem maður mun líklega aldrei upplifa í raunveruleikanum.

Þegar maður skapar persónu þá er gott að taka við af tveimur atriðum, annars vegar hvernig spunaspilari maður er sjálfur, þ.e. hvers lags stereótýpur heilla mann oftast eða hvers kyns persónur maður býr oftast til, og hins vegar hvernig persóna manns fellur að hópnum eða grúbbunni og sögunni.

Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá hættir okkur oftast til að spila svipaðar stereótýpur. Það hefur ekkert með classes eða slíkt að gera, heldur hvernig grunnímynd persónunnar er. Til að mynda eru sumir leikmenn sem vilja alltaf spila líkamlega sterkar persónur sem eru góðir bardagamenn, aðrir leikmenn vilja spila útsjónarsamar og klókar persónur á meðan enn aðrir leikmenn kjósa frekar að vera félagslega sterkir leiðtogar og loks eru það þeir sem vilja spila eins konar safnara, þ.e. týpur sem vilja leita uppi hluti, uppgötva og rannsaka.

Hvaða stereótýpu sem þér hentar best að spila þá er gott að hugsa til þess hvernig persónan fellur að hópnum og frásögninni. Í raun gæti verið svolítið gott að hugsa um grúbbuna sem hetjur í sjónvarpsþætti eða kvikmynd. Í slíku skrifuðu efni uppfyllir hvers persóna oft ákveðið hlutverk innan hópsins, þ.e. er einn sem getur kjaftað sig úr öllu, einn sterkur, annar tæknilega sinnaður og enn annar sem er klókur og útsjónarsamur (hefurðu séð kvikmyndina Goonies?). Það getur þannig verið sniðugt að leikmenn og stjórnandi ræði saman um hugmyndir hvers og eins leikmanns að persónu og reyni þannig að skapa gott teymi.

Spunaspilun

Þá er það náttúrulega það sem mestu máli skiptir, spilunin sjálf. Það er ekkert gefið að maður viti strax í fyrstu spilun hvernig best sé að haga sér eða spila spunaspil. Við sem eldri erum getum vissulega leiðbeint en það er fátt sem kemur í stað reynslu. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

Taktu þátt, taktu frumkvæðið

Stundum hættir okkur spunaspilurum að ofhugsa hlutina, gera áætlanir og skipuleggja aðgerðir persóna okkar úr hófi fram. Skemmtilegasta sem maður gerir hins vegar er einmitt að gera mistök, að ganga í gildrurnar og fyrirsát skrímslanna. Það er oft það sem gerir spilastundirnar skemmtilegar.

Allar frásagnir hafa ákveðna hrynjandi, ákveðinn takt og ákveðna stemningu. Við leikmenn þurfum að geta tekið þátt, gengið inn í framsögnina og gengist henni á hönd. Með því að ganga inn í söguna verðum við gerendur og tökum þátt í að móta hana. Með því að taka frumkvæðið verður sagan okkar. Þekktu þannig styrkleika persónunnar þinnar og reyndu að spila inn á þá í þeim aðstæðum sem stjórnandi og frásögnin býður upp á.

Ekki eyða tíma í að stöðva flæði frásagnarinnar, reyndu frekar að stýra inn á að umræður fari fram í persónu og innan marka frásagnarinnar. Í stað þess að ræða um hve margar lotur dvergurinn þinn væri að drukkna ef honum væri kastað fyrir borð á skipi, ræddu við hinar persónurnar um hvernig hægt væri að leysa aðstæðurnar, t.d. með hjálp galdra eða útsjónarsemi. Hugsaðu út fyrir rammann, reyndu að sjá fyrir þér aðstæðurnar og hvernig persónan þín kæmi auga á sniðugar og frumlegar lausnir.

Það er margfalt skemmtilegra spila þegar við eyðum tímanum í að vera í persónu og takast á við þau vandamál og aðstæður sem upp kunna að koma í spiluninni. Tími sem fer í umræður um reglur, útfærslur á reglum eða alls kostar óskyld málefni er oft tími sem fer til spillis. Það er hlutverk stjórnanda að skera úr um túlkun á reglum.

Ekki metagame’a! Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá þarf stundum að útskýra þetta fyrir jafnvel reyndustu leikmönnum. Þetta atriði er hins vegar það sem hvað flestir eiga erfiðast með, jafnvel við sem höfum spilað lengur en góðu hófi gegnir, höfum lent í því að metagame’a. En við ættum öll að reyna forðast það í lengstu lög, því það dregur úr ánægju allra.

Vertu persónan

Með því að spila spunaspil gefst okkur reglulega tækifæri á að vera einhver önnur persóna. Nýtum okkur það. Verum þessi persóna á meðan spilastundinni stendur og njótum þess.

Þá skiptir miklu máli að muna að það er munur á því sem þú, leikmaðurinn, veist og því sem persónan veit. Persónan þekkir t.d. ekkert inn á reglur spilsins, ung vampíra þekkir ekkert endilega inn á Rötschreck og við sem leikmenn þurfum jafnvel að ganga inn í aðstæður vitandi að það getur haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir vampíruna.

Skapaðu rödd persónunnar. Hér á ég ekki við að þú leiklesir allt fyrir persónuna með fyndinni röddu, heldur að þú munir að spunaspil ganga út á að tala saman. Það getur hjálpað þér að ímynda þér hvernig persóna þín talar, hvaða orð hún notar og slíkt. Þannig getur verið mikill munur á því hvernig kanadískur indjáni talar annars vegar og hins vegar hámenntaður háskólaprófessor. Orðaforðinn er ólíkur, jafnvel einfaldir hlutir eins og hikorð (ha, sko, þú veist o.s.frv.) eru gjörólíkir, sem og hvaða orð eru notuð yfir sömu hluti. Þannig gæti indjáninn ekki þekkt fræðiorð úr fagi prófessorsins en hugsanlega haft fjölmörg ólík orð yfir ýmis veðurfyrirbrigði.

Ekki-reglurnar

Það eru nokkrar einfaldar ekki-reglur sem gott er að hafa á bakvið eyrað.

  • Ekki vera lögfræðingur! Mundu, það er stjórnandi í spilinu sem hefur lokaorðið.
  • Ekki reyna segja hinum spilurunum hvað þeir eigi að gera. Þeir stjórna persónunum sínum.
  • Ekki fylgjast bara með þegar þú átt að gera! Verstu leikmennirnir eru þeir sem mæta með fartölvuna sína og hanga á Facebook á meðan spilun stendur. Eða eru í snjallsímanum í tíma og ótíma.

Að lokum…

Það er ein regla sem kalla má Gullnu regluna. Og hún trompar allt annað.

Skemmtu þér!

Ef þú leggur upp með það að hafa gaman af spilunum þá eru miklu meiri líkur á að spilunin verði skemmtileg. Þetta síðasta atriði er ofar öllu öðru. Enda eru spunaspil til þess gerð.

Góða skemmtun.

 

Flokkar

leikmenn

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: