Skip to content

Greyhawk

Greyhawk er elsti D&D heimurinn og hugarsmíð Gary Gygax, annars af frumkvöðlum og höfundum þessa vinsæla spunaspils. Þaðan koma margar af helstu hetjum og illmennum D&D, sem og gerast mörg af klassískustu ævintýrum Dreka og Dýflissa í Greyhawk. Á næstunni munum við fjalla um alla D&D heimana og er umfjöllunin um Greyhawk sú fyrsta í röðinni.

Greyhawk_logoÓlíkt því sem margir telja þá er Greyhawk ekki fyrsti heimurinn sem gerðir var fyrir D&D-like spunaspil. Blackmoor heimur Dave Arneson er örlitlu eldri. Greyhawk er hins vegar öllu þekktari og hefur haft umtalsvert meiri áhrif á D&D í heildina. Upphaflega bjó Gygax aðeins til dýflissurnar undir Greyhawk kastala og voru börn hans, Ernie og Elise, fyrstu leikmennirnir sem fengu að kynnast þeim fjölda óvætta og skrímsla sem þar var að finna. Síðar fjölgaði hæðunum í dýflissunni sem og umhverfi kastalans tók á sig mynd, þannig birtist Greyhawk borg og síðar fleiri staðir og þorp á borð við Hommlet. Fyrsta bókin sem gefin var út fyrir Greyhawk fjallaði reyndar lítið um heiminn sjálfan, en þar var frekar sagt frá möguleikum fyrir leikmenn, t.d. göldrum. Var það trú Gygax þá að stjórnendur ættu frekar að búa til sína eigin heima en að spila í heimum annarra.

Þarna á upphafsárum Greyhawk lagði Gygax því meiri rækt við að búa til skemmtileg ævintýri fyrir leikmenn sína en að huga mikið að baksögu heimsins eða heiminum sjálfum. Til að mynda teiknaði hann staði inn á kort af Bandaríkjunum í stað þess að búa til sitt eigið sjálfur og var Greyhawk nokkurn veginn þar sem Chicago er. Þá bera nöfn margra persóna leikmanna hans þess merki einnig, t.d. lék Jim Ward hinn fræga galdramann Drawmij (prófaðu að snúa orðunum Jim Ward við) og Rob Kuntz lék bardagamanninn Robilar. Hins vegar virðist þetta hafa slegið algjörlega í gegn, því oft voru hátt í 20 leikmenn í spilastundum hjá Gygax og var því nóg að hugsa um.

Þannig var það ekki fyrr en fjórum árum eftir að Gygax byrjaði að búa til Greyhawk að fyrst er minnst á Oerth, en orðið kemur fyrir í fyrsta Dragon heftinu. Þar er einnig fyrst fjallað um goðfræði Greyhawk, en Gygax hafði upphaflega ekki lagt mikla rækt við að búa til goðfræðina og t.d. urðu æsirnir St. Cuthbert og Pholtus upphaflega til sem brandarar hjá Gygax. Hins vegar er minnst á fyrra goðið í þessu Dragon blaði. Auk þess voru gefin út nokkur ævintýri sem gerast í Greyhawk á þessum tíma, allt ævintýri sem voru prófuð fyrst af spilahópi Gygax. Ævintýri á borð við Tomb of Horrors, Vault of the Drow og Steading of the Hill Giant Chief.

Eftir því sem nær dró 9. áratuginum og greinum um ævintýrin í Greyhawk sem og með útkomu AD&D Player’s Handbook árið 1978, þar sem fjölmargir galdrar báru nöfn galdramanna úr Greyhawk og persóna úr spilastundum Gygax, þá jókst áhugi annarra á Greyhawk. Það varð til þess að Gygax skipti um skoðun og ákvað að búa til heiminn. Hann byrjaði á því að skapa Oerik, eina af heimsálfum Oerth. Eins lagðist hann í að skrifa mikla sögu svæðisins, en sjálfur var Gygax mikill áhugamaður um sögu hernaðar og má sjá ýmis líkindi í sögu Greyhawk við sögu okkar heims.

Upphaflega ætlaði TSR að gefa út The World of Greyhawk snemma árs 1979 en fyrsta útgáfa kom ekki út fyrr en í ágúst ári síðar. Þar var að finna 32 blaðsíðna bók um svæðið Flanaess sem og tvö litakort af svæðinu. Heilt yfir voru viðtökur góðar en gagnrýnt var að hvorki væri minnst einu orði á goðfræði heimsins né hinar þekktu dýflissur undir Greyhawk kastala. Það er í raun ekki fyrr en nokkrum árum síðar sem Gygax gefur út eitthvað um goð heimsins, en fjallað var um þau í nokkrum greinum sem birtust í Dragon snemma á 9. áratuginum. Á þessum tíma komu út þó nokkur þekkt ævintýri, t.d. Expedition to Barrier Peaks, Queen of the Demonweb Pits og The Hidden Shrine of Tamoachan.

Á fyrri hluta 9. áratugarins var mikið af efni gefið út fyrir Greyhawk, bæði kassar með ítarlegum upplýsingum um heiminn og mismunandi svæði hans sem og fjölmörg ævintýri og skáldsögur. Gygax var auk þess að miklu leyti í Hollywood að aðstoða við gerð Dungeons & Dragons teiknimyndaþáttanna þannig að hann hefur eflaust haft í nægu að snúast á þessum tíma. Hann skrifaði einnig skáldsöguna Saga of Old City þar sem sagt er frá Gord the Rogue. Á þessum tíma komu út ævintýri á borð við Temple of Elemental Evil og Beyond the Crystal Cave. Hins vegar fór áhugi TSR á Greyhawk dvínandi, sér í lagi eftir því sem Dragonlance varð sífellt vinsælla. Það, ásamt innanhús valdaátökum, varð til þess að Gygax yfirgaf TSR í lok árs 1985.

TSR gaf lítið út af efni fyrir Greyhawk næstu þrjú árin. Það er í raun ekki fyrr en Jim Ward, einn af upprunalegu leikmönnum Gygax og starfaði enn hjá TSR, óskaði eftir því að heyra frá leikmönnum hvað þeir myndu vilja sjá í nýrri uppfærslu á Greyhawk. Hann fékk gríðarlega góð viðbrögð og 1988 gaf TSR út nýjan kassa um Greyhawk borg, um var að ræða alveg nýja útgáfu af borginni sem byggði þó á eldra efni. Tveimur árum síðar gaf TSR út ævintýrið Greyhawk Ruins, þar sem fjallað var um kastalann og dýflissuna undir honum.

Á 10. áratuginum var reynt að blása lífi í heiminn með því að gefa út efni sem hristi aðeins upp í honum. Greyhawk Wars sumpart undir ritstjórn Carls Sargents. Iuz hinn illi réðst gegn þjóðunum á Flanaess og það var ekki fyrr en eftir tveggja ára ófrið að loks tókst að skrifa undir friðarsamkomulag í Greyhawk borg (hvar annars staðar!?). Þessi atburði voru kynntir í ævintýrum (Howls from the North, Five shall be One og Wars) en nokkru síðar kom úr kassinn From the Ashes, þar sem fjallað var um Flanaess svæðið að loknu stríðinu við Iuz. Er öll sú saga hin áhugaverðasta, sér í lagi aðkoma hins þekkta galdramannasveims Circle of Eight og hvernig sumir í hópnum sviku og réðust á félaga sína. Nokkur ævintýri voru gefin út fyrir Greyhawk þessa tíma en fæst þeirra náðu miklum vinsældum og síðla árs 1994 ákvað TSR að hætta að gefa út efni fyrir Greyhawk.

Nokkrum árum síðar var TSR keypt af Wizards of the Coast og bjargað þannig frá því að verða gjaldþrota. WoTC hafði grætt vel á Magic the Gathering safnkortaspilinu og var því í stakk búið að takast á við vandræði TSR. Eitt það fyrsta sem var gert var að skera niður þann fjölda heima sem gefnir höfðu verið út fyrir D&D. Forstjóri WoTC var aðdáandi bæði D&D og Greyhawk og var ákveðið að uppfæra reglur spilsins og byggja allar grunnbækurnar á Greyhawk heiminum. Ásamt nokkrum öðrum bókum voru mörg af klassískum Greyhawk ævintýrum endurgerð og endurútgefin, ævintýri á borð við Return to Temple of Elemental Evil og Return to Tomb of Horrors. Þá var gerð tilraun með að tengja saman Greyhawk, Ravenloft og Planescape heimana með útgáfu ævintýrisins Die, Vecna, Die en það var síðasta ævintýrið sem gefið var út fyrir AD&D.

Wizards komu hins vegar ekki mikið að Greyhawk að öðru leyti, en eftirlétu RPGA að gefa út efni fyrir heiminn, þ.e. hið svokallaða Living Greyhawk. Það efni sem kom út þannig var hins vegar aldrei talið vera viðurkennt.

Eftir aldamót hefur Greyhawk þannig einkum birst sem heimur nostalgíu og afturlits, en lítið verið bætt við hann. Fyrir nokkrum árum kom út ævintýra serían Age of Worms sem gerist í eins konar útgáfu af Greyhawk (þannig var The Free City of Greyhawk bara Free City í ævintýrinu) en á netinu mátti finna leiðbeiningar um hvernig mætti auðveldlega færa ævintýrið alfarið inn í Greyhawk heiminn. Í Age of Worms birtast m.a. margar af þekktari persónum Greyhawk sem og þurfa hetjurnar að þefa uppi einn af umtöluðustu galdrahlutum heimsins.

Í raun var gullöld Greyhawk í lok 8. áratugarins og í byrjun þess níunda, þ.e. á meðan Gygax hafði öll tögl og haldir í heiminum. Vissulega má gagnrýna hann fyrir samhengisleysi, misgóðan húmor og skort á áhuga á baksögu og umhverfi, en hann hafði þó brennandi áhuga á því sem hann var að gera og það smitaðist í gegnum efnið sem hann gaf út á þeim tíma. Og það held ég að hafi orðið til þess heimurinn varð ekki að svona einnar sögu heimi (Krynn, ég er að horfa til þín) og þess vegna lifa mörg þessara ævintýra enn góðu lífi.

Flokkar

D&D

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: