Skip to content

Að búa til sinn eigin heim

Flestir stjórnendur reyna á einum eða öðrum tímapunkti að búa til sinn eigin heim. Það er í senn gefandi og skemmtilegt, maður hefur frelsi til að hafa alla þætti eftir sínu eigin höfði. Þó að vissulega sé auðveldara að halda sig við útgefið efni, þar sem einhver annar hefur séð um að setja niður öll smáatriðin og skapað allar aukapersónur, þá getur það verið mjög lærdómsríkt að gefa sér tíma til að búa til sinn eigin heim, fyrir hvaða kerfi sem er.

Það eru til margar aðferðir við að búa til sinn eigin heim en sú aðferð sem ég ætla að fjalla um hér er kölluð spírals-aðferðin. Hún krefst þess ekki að stjórnandi sé með allt á hreinu þegar spilun hefst, þ.e. þú sem stjórnandi getur leyft þér að skilja eftir býsna stórar eyður og leyft þér að fylla upp í þær eftir því sem við á eða þörf krefur. Þannig seturðu fókusinn á persónur leikmanna og leyfir sögunni að þróast í kringum þær. Jú, það er alveg rétt að stjórnandi þarf að þekkja samfélagsgerð, landslag, náttúru og svo mætti lengi telja, en hversu miklu máli skiptir þetta allt í fyrstu spilunum?

Í stuttu máli sagt, þá því færri smáatriði, því meira frelsi. Þannig gætirðu byrjað á því að teikna upp eitt geimskip, eitt þorp eða jafnvel bara eitt hús og unnið út frá því. Þá fyllirðu í eyðurnar eftir því sem persónurnar kalla eftir því. Það þýðir að þú þarft að vera dugleg að punkta hjá þér það sem kemur fram í spilunum og muna að byggja ofan á það. Hið mikilvægast er þó að þú sem stjórnandi sért tilbúin að sleppa taki á því að þú vitir allt sem er að gerast í heiminum og að þú nýtir þér frekar það að hlusta á það sem leikmenn ræða sín á milli og bregðast við því. Leikmennirnir gætu þannig gefið þér hugmyndir að ævintýrum og sögum sem eru miklu áhugaverðari en það sem þér datt í hug.

Oft vill maður tryggja að heimurinn sinn hafi eitthvað sérstakt, eitthvað einstakt. Sumir stjórnendur horfa til ása og goða, aðrir til galdra og enn aðrir til samfélagsgerðar. Hér gildir þó að velja eitt, kannski tvö atriði, til að byrja með. Ekki að missa sig í sérkennum þar til sérkennileikinn sjálfur verður að normi, ef svo mætti að orði komast. Leikmenn vilja jú flestir spila eitthvað sérstakt en um leið eitthvað kunnuglegt. Þannig gæti verið sniðugt að byrja á að sýna víða mynd af hvernig heimurinn er en gefa aðeins gaum að þeim smáatriðum sem skipta máli til að byrja með, t.d. hvaða ferðamöguleikar standa persónunum til boða (hestar, geimskip, drekar, galdraknúnar eimreiðar o.s.frv.). Leikmenn geta síðan dregið ályktanir sínar út frá þeim möguleikum, t.d. ef þeim stendur til boða að fljúga með drekum eða kaupa far með eimreiðum knúnum einhverri framandlegri galdraorku, að um high-magic heim sé að ræða. Þá er smáatriðið, sem kannski breytir ekki öllu þegar öllu er á botninn hvolft, farið að gefa enn stærri mynd af heiminum.

Auðvitað hentar þetta ekki öllum stjórnendum eða leikmönnum, margir vilja hafa margt af þessu á hreinu jafnvel fyrir fyrstu spilun. Þú þarft þannig að gera upp við þig hvaða atriði það eru sem þú getur búið til á staðnum og hvaða atriði þurfa að vera komin á hreint áður þú hleypir leikmönnum af stað.

Það getur verið ágætt að búa til kort og margir styðjast mikið við þau í spilunum. Þegar maður notar þessa aðferð þá gildir það sama um kortagerð og annað, þ.e. þú byrjar á víðri mynd en fyllir síðan inn í hana eftir því sem þörf krefur. Það gefur þér færi á að semja sögur og búa til staði eftir því sem við á. Þú þarft þannig aðeins grunnatriðin, t.d. hvaða konungsdæmi eru eða hvaða plánetur eru í þessu sólkerfi. Þú bætir síðan inn á kortið eða bætir við kortum eftir því sem aðgerðir aðalpersónanna kalla eftir því.

Þegar verið er að útbúa kort getur verið ágætt að haga því þannig að kortið falli vel að upphaflega plottinu. Þegar ég nota þessa aðferð þá byrja ég iðulega á því að búa til kort sem dugar mér fyrstu sessionin og vinn síðan út frá því. Kortið nýtist mér til útskýringa og þess háttar fyrstu spilanirnar en síðan bæti ég smátt og smátt inn á það. Þannig gæti geimskipið verið ágætlega teiknað upp og fyrstu spilastundirnar fara í að persónur leikmanna kynnist því og öðrum um borð, t.d. ef morð hefur verið framið og persónurnar þurfa að finna morðingjann. En þú þarft ekki að setja hvert smáatriði inn á kortið, heldur aðeins þau sem þú telur skipta máli fyrir söguna og/eða það sem persónurnar vita. Til dæmis mætti nefna að í Out of the Abyss hefst sagan á ákveðnum stað í Underdarkinu en hetjurnar vita ekki nákvæmlega hvar sá staður er. Eitthvað heildarkort af Underdarkinu skiptir þar þannig ekki máli fyrir leikmennina, en kort af því sem þeir vita gæti gert það.

Mér finnst ágætt að byrja á því að skrifa upp ævintýri sem inniheldur nokkrar krækjur og gefur leikmönnum færi á að kynnast helstu aukapersónum. Þegar fyrstu atburðirnir eru liðnir þá getur verið sniðugt að gefa leikmönnum lausan tauminn, þ.e. að þeir hafi tækifæri til að víkka út söguna og skoða hana á sínum forsendum. Þannig skil ég eftir einhver atriði eða vísbendingar sem þeir ýmis ákveða að skoða eða ekki. Það hvort þeir rannsaki vísbendingarnar er náttúrulega háð þeim hvötum sem liggja að baki vísbendingunum eða þeim hvötum sem liggja að baki ákvörðunum persónanna.

Spíralsaðferðin er ein þeirra aðferða sem hægt er að nota við að búa til heim. Hún er ekki fullkomin og hún kallar á að stjórnendur séu tilbúnir að sleppa svolítið takinu á því að sköpunin sé öll þeirra. Hún kallar einnig á að stjórnendur séu nægilega öryggir í spuna til að bregðast við og spinna á staðnum í eyðurnar. Þessi aðferð getur þó boðið upp á stórskemmtileg ævintýri þar sem persónur leikmanna eru í miðjunni og hlutirnir hverfast um þær.

 

 

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: