Skip to content

Góð ráð fyrir nýja stjórnendur

Langar þig að byrja að stjórna spunaspili? Hefur þig lengi dreymt um að sitja hinum megin við stjórnendaskjáinn og stýra vonda karlinum? Það að stjórna spunaspili getur verið mjög skemmtilegt, á að vera skemmtilegt en það krefst meira af þér, bæði í formi undirbúnings og þú þarft að hugsa fyrir og leika fleiri persónur en sem leikmaður. Hér eru nokkur ráð sem geta auðveldað þér lífið sem stjórnandi.

Undirbúningur og skipulag

Facebook/Tölvupóstur/SMS
Vertu í sambandi við leikmennina þína fyrir spilanir. Það getur oft verið ágætt að ræða við leikmenn fyrir spilanir, bæði til að ganga úr skugga um að allir komist en eins er gott að hlera svona fyrirfram hvernig þeir sjá fyrir sér persónu sína, hvaða breytingar þeir hafa gert t.d. vegna þess að hetja hækkaði um level og svo framvegis. Þá getur líka verið gott að nota slíkt til að hjálpa leikmönnum að rifja upp hvað gerðist í síðustu spilun, t.d. setja stutt yfirlit eða dagbók inn á Facebook, sem og bjóða leikmönnum að nýta tímann milli spilastunda til að spyrja spurninga sem tengjast persónum, uppfærslu þeirra eða eitthvað sem tengist sögunni sem verið er að spila og þarfnast frekari útskýringa.

Eigðu afrit af persónublöðum
Margir stjórnendur eiga afrit af persónublöðum hetjanna í sögunum. Bæði auðveldar það manni að stilla af styrkleika andstæðinga og einnig ef leikmenn gleyma persónublöðunum sínum heima (já, ég hef lent í því oftar en einu sinni) þá ertu með auka eintak. Ef það heillar þig ekki að vera með afrit af heilu persónublöðunum og að þurfa uppfæra þau reglulega, þá getur verið ágætt að punkta hjá sér, í t.d. Excel skjal, helstu eiginleika og hæfileika.

Varasjóður aukapersóna og encountera
Það getur verið sniðugt að eiga í bók eða tölvu skjal með 20-30 aukapersónum og nokkrum encounters. Stundum (ok, eiginlega alltaf) fara leikmenn ekki alveg þá leið sem maður hafði séð fyrir sér, þeim dettur í hug að gera eitthvað sem þér hefði ekki komið til hugar þó að þú hefðir gefið þér 30 ár til undirbúnings og þá getur verið svo þægilegt að eiga svo sem 2-3 aukapersónur klárar sem geta leitt hetjurnar aftur á rétta braut.

Sagan

Hetjurnar verða að skipta máli
Hetjurnar standa aftur og aftur í spunaspilum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og það er fátt leiðinlegra en að finna að þessar ákvarðanir skipta engu máli. Hetjurnar verða þannig að hafa áhrif á umhverfi sitt, aðgerðir þeirra hafa afleiðingar og þær verða að standa skil á þeim, hvort sem afleiðingarnar eru góðar eða slæmar. Þannig getur verið mjög skemmtilegt og gefandi að berjast við einhverja Lovecraftíska óvætt, jafnvel þó að maður viti að það leiði óhjákvæmilega til þess að hetjan manns verði geðveik, deyi eða þaðan af verra (jább, í Call of Cthulhu eru til verri hlutir en að deyja!), ef maður hefur tekið þær ákvarðanir sem leiddu til þessarar stöðu sem maður er í.

Railroad getur þannig verið leiðinlegt en það þarf ekki alltaf að vera alslæmt. Spunaspil snýst nefnilega um val og það er list að fá leikmenn til að velja að vera hetjur, að velja sjálfir að fara eftir sögulínunni. Þannig geturðu stillt upp aðstæðum þannig að A er góð lausn, B er slæm lausn og C er virkilega slæm lausn. Þannig hefurðu sett upp aðstæður sem fela í sér stýrt val en val engu að síður.

Hetjurnar verða að eiga hlut að máli
Einn helsti kostur þess að semja sín eigin ævintýri er hve auðvelt það er að spinna baksögur persóna saman við söguna og tryggja þannig að þær eiga sjálfar hlut í þeirri sögu sem fram fer. Góður stjórnandi tryggir að allar persónur tengist sögulínunni með einum eða öðrum hætti, allt frá því að fá einfaldlega greitt fyrir verkefnið sem leysa þarf til þess að eiga persónulegra harma að hefna og allt þar á milli. Þannig tryggirðu að leikmenn tengi betur við frásögnina og sökkvi sér frekar í hana.

Hetjurnar verða að vera þátttakendur frá upphafi til enda
Það er fátt leiðinlegra en að vera búinn að spila svaka langt ævintýri allt frá byrjun til þess eins að horfa á einhverja NPC ofurhetju berjast við vonda karlinn. Því miður er oft freistandi að nota margar aukapersónur (í öllum kerfum og öllum heimum) og þær eru ósjaldan öflugar. Nægir þar að nefna aukapersónur á borð við Elminster og Drizzt. Þó að það geti verið heillandi að tengja svo þekktar persónur við sögur þá er oft skemmtilegra að þær séu í bakgrunni eða aðstoði hetjurnar eftir öðrum leiðum. Forðastu þannig líka atburði sem hetjurnar geta ekki haft nein áhrif á, það er bæði pirrandi og leiðinlegt.

Ekki sýna öll spilin á hendinni
Leyfðu leikmönnunum og hetjunum að uppgötva baksöguna þína smátt og smátt, ekki segja þeim allt í einu og alls ekki vera með einhverja aukapersónu sem útskýrir allt í lokin fyrir öllum. Hugsaðu söguna í dropum, láttu dropana falla reglulega fyrir fætur hetjanna þannig að þær eru sífellt að uppgötva eitthvað nýtt og þurfa að raða saman dropunum í heildstæða mynd.

Tryggðu að það séu verkefni fyrir alla
Það er hlutverk þitt að ganga úr skugga um að allar persónur skipti máli og fái tækifæri til að láta ljós sitt skína. Ef það er druid í hópnum gæti verið sniðugt að búa til atburð þar sem hetjurnar þurfa að takast á við einhvers konar náttúrutengda viðburði, því það leyfir þeirri hetju að vinna með styrkleika sína. Að sama skapi þarftu að búa til aðstæður þar sem unnið er með veikleika viðkomandi, t.d. erfitt Intelligence save, og ef þú tímasettur það rétt í sögunni þá getur það verið mjög spennandi og skemmtilegt.

Gangtu út frá því að hetjurnar geri allt annað en það sem þú reiknaðir með!
Vertu viðbúinn því óvænta. Spunaspilarar eru snillingar í að koma manni á óvart, bæði með snilld sinni og heimsku. Reiknaðu þannig frekar með því að þeir eigi ekki eftir að fara eftir leiðinni sem þú gekkst út frá.

Í spilun

Þekktu leikmennina þína
Ef leikmennirnir þínir hafa gaman af bardögum umfram allt, þá er ekkert að því að stilla spilunum þannig upp. Ef hópurinn hefur gaman af ólíkum þáttum þá er það þitt hlutverk að skapa hið fullkomna jafnvægi milli þeirra þátta sem leikmennirnir hafa mest gaman af.

Ekki rífast við leikmennina
Það getur komið fyrir að leikmenn vilji rökræða og jafnvel rífast yfir einhverri ákvörðun þinni, bæði í spilunum og eftir þær. Þér ber engin skylda til að réttlæta ákvarðanir þínar, þetta er sagan þín og þú ert stjórnandinn. Þar með er þó ekki sagt að þú sért einráður og alvaldur, heldur gildir hér að vera sanngjarn og hafa ávallt í heiðri að spunaspil á að vera skemmtilegt.

Fylgstu með leikmönnunum þínum
Ef leikmennirnir eru á kafi í pælingum, spjalla um söguna og eru jafnvel orðnir svo spenntir að þeir geta vart setið kyrrir, þá ertu að gera eitthvað rétt. Ef leikmennirnir eru uppteknari af símanum, Facebook í tölvunni eða einhverju álíka, þá þarftu að breyta til.

Upphaf og endir hverrar spilunar skiptir máli
Gefðu þér tíma til að byrja vel, t.d. með því að fara yfir þá atburði sem gerðust í síðustu spilastund. Að sama skapi skiptir máli að enda með ákveðnum hætti og það getur hreinlega verið ágætt að tilkynna það með formlegum hætti (…og hér endum við í kvöld.). Gildir þá einu hvort þú hættir í miðju kafi á ægilegum cliffhanger eða hvort þú endar við kaflalok í sögunni. Í raun mætti segja að þú sért með því að byrja og enda með ákveðnum hætti ertu að leiða leikmennina í gegnum ákveðið ritúal og það setur bæði þér og þeim skorður.

Eftir spilun

Gefðu þér tíma til að spjalla
Flestir spunaspilarar hafa þörf fyrir að ræða spilanir og það sem gerðist í þeim að þeim loknum. Reiknaðu með að þú þurfir tíma í það, oft getur farið drjúgur tími í að skeggræða hin ýmsu atriði, allt frá hvernig fjársjóðir skiptast til minnstu smáatriða í sögunni.

Ekki gefa þér hvernig leikmenn kunni að hafa upplifað spilastundina
Hlustaðu á hvað leikmennirnir hafa að segja og gefðu gaum að því hvernig þeir upplifðu spilastundina. Það getur falist mikill lærdómur í því og sem stjórnandi er maður aldrei fullnuma. Nýttu þér þessar upplýsingar til að verða enn betri stjórnandi. Ekki hika við að spyrja leikmennina ef þeir koma ekki af fyrra bragði til þín til að hrósa eða kvarta.

Eflaust eiga reyndari stjórnendur en ég enn fleiri ráð fyrir nýja stjórnendur. En ég held að ég geti fullyrt að meginreglan og í raun eina atriðið sem hægt er að kalla reglu, sé að hlutverk stjórnanda er að tryggja að allir við borðið skemmti sér vel.

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: