Skip to content

Óvættir og illmenni – Rýnt í Monstrous Manual

Undanfarið höfum við verið að skoða reglubækurnar fyrir nýjustu útgáfu af Dungeons & Dragons. Við höfum þegar fjallað um Dungeon Master’s Guide og eins Player’s Handbook, en þar fjölluðum við annars vegar umpersónusköpun og hins vegar kerfið sjálft. Nú er komið að því að fjalla um síðustu bókina af hinni heilögu þrenningu, Monstrous Manual, en í þeirri bók er sagt frá öllum þeim skrímslum, óvættum og andstæðingum sem hetjur kunna að mæta í ævintýrum sínum.

Eitt af því sem hefur lengi dregið spunaspilara að D&D er hve margar þær óvættir sem er að finna í spilinu eru skemmtilegar og erfiðar að eiga við. Eflaust kunna flestir spunaspilarar sögur af því þegar þeir vörðust hetjulega árás hóps uppvakninga, komust lifandi úr greni rauðs dreka eða réðust gegn her djöfla. Þannig hafa ýmsar óvættir og skrímsli verið andhetjur og helstu andstæðingar hetja í D&D svo árum skiptir og margar þeirra orðnar svo rótgróinn hluti af kerfinu að erfitt er að ímynda sér Monstrous Manual (hér eftir MM) án þeirra.

Um leið og maður flettir fyrst í gegnum nýja MM verður maður strax áþreifanlega var við að bókin er hugsuð eins og Best-of plata hljómsveitar. Í henni er að finna öll þekktustu og mest notuðu skrímsli, allt frá lágt settum drýslum til æðstu djöfla í dýpstu pittum Heljar, í heildina vel yfir 150 andstæðingar. Í henni eru helstu drekar, orkar af mismunandi stærðum, úrval ódauðra og hvers kyns óvættir á borð við beholders og aboleths, í bland við verur sem hafa í gegnum tíðina verið minna notaðar, t.a.m. modrons og flumphs.

tarasqueEins og með hinar bækurnar tvær þá er MM vel sett upp að mestu leyti, myndskreytingar framúrskarandi fallegar og bókin í heild sinni eigulegur gripur. Mörgum skrímslum fylgja aukaupplýsingar um þekkta einstaklinga, t.d. fylgja flottar upplýsingar um Strahd von Zarovich, greifa í Barovíu, með færslunni um vampírur. Einnig eru skemmtilegir minnismiðar sem má finna víða og ljá bókinni bæði skemmtilegum anda og tengir margar óvættir við sögu D&D. Sá galli er þó á bókinni að hvergi er að finna töflu þar sem skrímslin eru flokkuð eftir erfiðleikastigi (e. Challenge rating). Reyndar hafa WoTC gefið þá töflu út í PDF, og hægt er að nálgast á heimasíðu þeirra.

Ég er ekki aðdáandi erfiðleikastigskerfisins eins og það var sett upp í 3. útgáfu. Í nýju útgáfunni er það umtalsvert einfaldara en stjórnendur sitja þó uppi með að þurfa að reikna út sjálfir hve erfiður atburður (e. encounter) er ef stjórnandi hefur ákveðið að blanda saman ólíkum skrímslum og jafnvel hækka eða lækka einhver þeirra um erfiðleikastig, t.d. með því að gera einn ork harðari og að leiðtoga hópsins. Það er því eiginlega synd að Wizards of the Coast skuli hafa ákveðið að halda ekki áfram að þróa Dungeonscape, sem var hugsað fyrir stjórnendur, og var ætlað að koma í staðinn fyrir stafrænu tólin sem leikmönnum og stjórnendum stóð til boða fyrir 4. útgáfu.

Það er margt í þessari bók sem er mjög áhugavert og breytingar til hins betra að mínu mati. Ákveðin skrímsli eru t.a.m. gerð mun erfiðari fyrir sakir sérstöðu sinnar, t.d. hafa drekar svokallaðar legendary actions sem gerir þá að sérlega hættulegum andstæðingum, og enn erfiðara er að ráðast gegn þeim þegar þeir eru í grenum sínum, því þá hafa sumir þeirra einnig það sem er kallað lair actions. Auk þess hafa sum skrímsli mikil áhrif á umhverfi sitt, þannig er kalt og vetrarlegt um að litast í kringum gren hvítra dreka, vötn þar sem aboleths dvelja súrna og umhverfis hýbýli beholders finnst öllum eins verið sé að fylgjast með sér. Þá eru mörg skrímsli með eiginleika sem hafa ekki beinlínis bein áhrif í bardögum en skapa þeim sérstöðu, t.d. senda myconoid frá sér gró sem gera öðrum af sömu tegund kleift að finna sama sársauka og þeir. Svo eru eiginleikar sem hafa bein áhrif á leikinn, s.s. eiginleiki kraken verunnar til að gera tvöfaldan skaða á byggingar og dauða hluti.

Heilt yfir er MM flott bók og hin heilaga þrenning í raun virkilega vel útfærð hjá Wizards of the Coast. Sannast sagna þá var ég ekki með miklar væntingar og bjóst við því að þessi útgáfa yrði ekki mjög spennandi, þar sem yfirlýst markmið þeirra var að heilla aðdáendur allra útgáfna og oft er það þannig að þegar þú reynir að ná til allra þá nærðu ekki til neins. Þessi útgáfa er að mínu mati vel hugsuð, í anda D&D og stórgóð að flestu leyti. Ég vona að Wizards haldi áfram á þessari braut.

Flokkar

Rýni

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: