Skip to content

D&D 5. útgáfa – Player’s handbook skoðuð

Nýverið gaf fyrirtækið Wizards of the Coast út 5. útgáfu af spunaspilinu Dungeons & Dragons. Þessarar útgáfu verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, enda stendur mörgum spunaspilurum ekki á sama um D&D. Undanfarnar útgáfur hafa fengið misjafna dóma spilara, t.a.m. fékk 4. útgáfa frekar blendin viðbrögð og töldu margir spilarar að þar væri verið að færa D&D full nálægt tölvuleikjum. WoTC brá því á að það ráð að leita til spilaranna sjálfra, fengu þá til að prufukeyra frumútgáfu af kerfinu og tóku mið af gagnrýni þeirra áður en lokaútgáfa kerfisins leit dagsins ljós. Við erum þessa dagana að prófa nýja kerfið og fjöllum hér um persónusköpunina.

Eitt af því sem ég held að flestir framleiðendur spunaspila eru teknir að uppgötva og það er hve mikilvægt er að bækurnar sem geyma kerfin, upplýsingar um heima eða ævintýri, séu fallegar, vel uppsettar, aðgengilegar og innihaldi lýsandi og flottar myndir. Hin nýja Player’s Handbook (hér eftir PHB) er þar í engu undanskilin. Bókin er stórglæsileg, myndirnar í heild skemmtilegar og sannast sagna þá hellist að minnsta kosti yfir mig ákveðin nostalgía við að fletta í gegnum hana. Ég byrjaði að spila 1992, þegar AD&D var enn ríkjandi D&D kerfi, þegar myndir Jeff Easley, Larry Elmore og fleiri listamanna skreyttu flestar bækur og ég man að ég gat flett aftur og aftur í gegnum þær, í leit að hugmyndum að nýjum persónum. Þegar ég fór fyrst í gegnum nýju PHB þá fann ég svipaðan fiðring og í fyrsta skipti í mörg ár fann ég til eftirvæntingar eftir því að spila og prófa nýja kerfið. Ekki misskilja mig, ég hef mjög gaman af D&D og hef spilað flestar útgáfur kerfisins í hörgla, en þessi einfalda, barnslega eftirvænting og spenna gagnvart kerfinu sjálfu er eitthvað sem ég hef ekki upplifað lengi.

Bókinni er skipt í þrjá hluta, persónusköpun, kerfið og loks galdra. Hver hluti er vandlega afmarkaður og auðvelt er að fletta upp í henni í leit að tiltekinni reglu eða útskýringu. Venju samkvæmt er atriðisorðaskrá aftast í bókinni ásamt stuttum viðbótum, t.d. um guði o.þ.h. Textinn er í heild sinni læsilegur og auðskiljanlegur, ég held að leikmenn sem eru með grunnþekkingu í ensku muni ekki eiga í miklum erfiðleikum með að skilja textann. Einnig er gaman að sjá að framleiðendur virðast hafa ákveðið að taka D&D örlítið ofan af þeim helgistalli sem það hefur stundum verið á, og gera á köflum góðlátlegt grín, bæði að kerfinu, sögu þess og sjálfum sér.

Persónusköpun

Til að byrja með eru kynþættir D&D kynntir. Fjórir kynþættir eru sagðir ráðandi, álfar, dvergar, menn og halflings, en aðrir kynþættir ekki jafn fjölmennir. Þá eru stöður (e. classes) kynntar og eru þær fjölmargar en eflaust eiga einhverjir eftir að sakna þess að sjá bæði psionic stöður og eins hinar fjölmörgu nýju stöður sem kynntar voru í 4. útgáfu, t.d. Avenger. Mig grunar að WoTC ætli sér að gefa út slíkar stöður í sérbók, en nær allar grunnstöður eru kynntar í þessari bók og ég held að flestum spilurum eigi eftir að nægja að notast við hana. Stöðurnar eru vel settar fram og auðvelt að lesa úr töflum. Myndir fylgja hverri stöðu, bæði til að sýna hverja stöðu fyrir sig en einnig til að skapa þá stemmingu sem tilheyrir hverri stöðu.

barb1

Allar stöður og allir kynþættir hafa þannig sín sérkenni. Eftir því sem persóna verður reynslumeiri því fleiri hæfileika öðlast hún. Ekki er lengur boðið upp á að leikmenn geti valið úr úrvali ólíkra krafta (e. powers) eins og var í 4. útgáfu, þannig minnir nýja útgáfan meira á enn eldri útgáfur. Þessi útgáfa býður þó upp á enn frekari sérlögun á persónum, leikmenn eru ekki jafn bundnir af því að velja úr sérstökum stöðu hæfileikum (e. class skills) heldur er val þeirra frjálsara. Ekki eru þó einhverjir punktar sem eru settir í hæfileika, eins og var í 3. útgáfu, heldur öðlast persónur proficiency bónus í hæfileikanum, sem er kannski líkara 4. útgáfu og AD&D. Leikmenn hafa þá einnig aðgang að feats, viðbót sem kynnt var í 3. útgáfu en geta valið að fá feat í stað þess að hækka tölu eiginleika (e. ability stat).

Það sem ég tel vera hvað bestu viðbótina í þessu kerfi er bakgrunnu kerfishlutinn. Þannig velja leikmenn bakgrunn persóna sinna og hefur hann áhrif á persónusköpunina. Ekki nóg með það, heldur þurfa leikmenn að sníða persónueinkenni, tengsl, gildi og galla, allt hlutir sem eru skilgreindir og settir á persónublaðið og geta haft áhrif á hvernig persónum vegnar, t.a.m. hafa þessi atriði áhrif á innblástur (e. inspiration) sem getur komið sér afar vel þegar hetjur lenda í vandræðum.

Eflaust eiga margir leikmenn sem nutu þess að spila 4. útgáfu eftir að sakna þess að geta valið úr fjölda krafta og sérsniðið hetjur sínar út frá þeim. Um margt get ég verið sammála því, að afturhvarf til hins einfalda Ég hegg, hitti og geri X í skaða er ekki endilega sú þróun sem ég hefði kosið, en mér finnst hins vegar sú áhersla sem komin er í kerfið á spuna umfram taktískra bardaga meira en vega það upp og í raun gera persónusköpunina í 5. útgáfu skemmtilegri en í fyrri útgáfum.

Ég hef skapað nokkrar persónur í kerfinu. Auðvelt er að falla í þá gryfju að besta persónur, t.d. velja bard sem stöðu og entertainer sem bakgrunn, en heilt yfir hefur það ekki stórvægileg áhrif. Persónur sem eru ekki byggðar með þeim hætti eru ekkert síðri kerfislega séð og virðist persónukerfið vera í nokkuð góðu jafnvægi. Sá galli er þó á PHB að takmarkað magn efnis kemst fyrir í bókinni og fyrir vikið er ekki um mjög auðugan garð að gresja þegar kemur að bakgrunnum og mætti segja mér að WoTC eigi eftir að gefa út bækur sem innihalda fleiri slíka kosti fyrir leikmenn. Þá eru leikmenn og stjórnendur hvattir til að útbúa slíka bakgrunna sjálfir.

Þó að persónusköpunin sé í góðu jafnvægi núna hefur sagan kennt okkur að WoTC hættir til að fara offari í útgáfu á bókum með valkostum fyrir leikmenn, ofgnótt bóka með viðbótum og valkostum fyrir persónusköpun leikmanna var gefin út fyrir 4. útgáfu sem og 3. útgáfu. Oft virtist manni sem ritstýring þessara bóka hafi ekki verið mikil, t.a.m. voru til feat sem höfðu sömu áhrif hvort með sínu nafni í tveimur ólíkum bókum, og stundum var sem kappið væri meiri en forsjálnin í þeim efnum. Ég vona þó að WoTC hafi lært af því og að persónusköpun í nýju útgáfunni verði ekki sá frumskógur sem hún varð í fyrri útgáfum. Eins og hún birtist í PHB er hún stórgóð og býður fyrst og fremst upp á skemmtilegt spunapil.

Flokkar

Rýni

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: