Skip to content

Star Wars – Edge of the Empire

Star Wars – Edge of the Empire er nýtt spunaspil frá framleiðandanum Fantasy Flight sem tók nýverið við leyfinu til að framleiða spil fyrir vörumerkið Star Wars. Kerfið er algjörlega nýtt og styðst við sérstaka teninga. Í Edge of the Empire taka leikmenn að sér hlutverk persóna sem lifa og hrærast á mörkum samfélagsins, í heimi heillandi þrjóta, hausaveiðara, smyglara og skipulagðra glæpa, og þurfa að finna leiðir til að komast af. 

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Star Wars, eiginlega allt frá því ég var smástrákur. Myndirnar og heimur í heild sinni hefur alltaf heillað mig og þegar ég byrjaði að spila spunaspil þá leið ekki á löngu áður en ég prófaði slíkt spunaspil. Það var WEG útgáfan, sem byggði algjörlega á 6-hliðateningum. Síðan þá hafa komið út þrjár útgáfur af spunaspilum fyrir Star Wars, tvær frá framleiðandanum WoTC og var önnur þeirra, Saga Edition, í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég var því pínu skeptískur þegar ég sá að Fantasy Flight hafði tekið við leyfinu frá WoTC og væntingarnar urðu enn minni þegar ég komst að því að Fantasy Flight ætlaði sér að notast við sérstaka teninga í kerfinu, á svipaðan hátt og gert var fyrir nýjustu útgáfuna af Warhammer spunaspilinu. En forvitnin varð efasemdunum sterkari og því keypti ég byrjendakassa Star Wars – Edge of the Empire í Nexus og gaf syni mínum. Það sem þar var að finna vakti áhuga minn og skömmu síðar keypti ég reglubókina.

17ya8no9hlgxmpngYfirleitt þegar ég fæ nýjar reglubækur í hendurnar þá fletti ég í gegnum þær og virði þær fyrir mér, svona áður en ég sökkvi mér ofan í textann. Í dag eru nefnilega flestar reglubækur orðnar virkilega flottar, af er það sem áður var að þær samanstandi af hvítum síðum hlöðnum texta og ýmsum töflum, heldur hafa flest stóru fyrirtækjana bæði virkilega góða listamenn á sínum snærum sem og grafíska hönnuði. Og það verður að segjast alveg eins og er, mér finnst þessi bók algjört augnakonfekt. Bæði er framsetning á texta góð, hann er auðlesinn og að mínu mati lítið um reglur eða textaskrif sem skilja má á nokkra mismunandi vegu. Eins er umbrot hið glæsilegasta og myndirnar virkilega flottar. Þó ekki væri fyrir nema þessa þætti, þá er þetta eiguleg spunaspilabók.

Edge of the Empire – kerfið og teningarnir

Kerfið sem Edge of the Empire byggir er afar ólíkt öðrum Star Wars kerfum, en undanfarar þess eiga það allir sameiginlegt að vera kerfi sem styðjast við tölur, þ.e. svo að persónu heppnist ákveðin aðgerð þarf leikmaður að kasta upp á því hvort hún takist og þarf að ná ákveðinni tölu, sem er þá ákveðin af sögumanni eða stjórnanda. Í þessu nýja kerfi er notast við nýja gerð af teningum, svokallaða Edge teninga. Þeim er skipt í nokkra flokka og er hver flokkur með ákveðin tákn. Leikmenn kasta upp á aðgerðir með þessum teningum og lesa úr táknunum og komast þannig að því hvort aðgerð hafi tekist eða mistekist. Einnig innihalda teningarnir ýmis önnur tákn, sem hafa mismunandi merkingu og getur þannig persónu mistekist einhver aðgerð en af henni hlaust engu að síður eitthvað jákvætt, t.d. gæti persónu mistekist að opna dulkóðaða tölvuskrá í aðaltölvu Stjörnuspillis en uppgötvað hver það var sem dulkóðaði hana. Kerfið býður bæði upp á túlkun á niðurstöðum kasta en einnig geta leikmenn og stjórnandi komið sér saman um túlkun teninganna, t.d. í dæminu hér að ofan gæti leikmaður lagt til að þó að persónu sinni hafi mistekist að opna dulkóðuðu skrána þá sjái hann hver framkvæmdi dulkóðunina og stjórnandi samþykkt þá túlkun.

Þá hafa leikmenn og stjórnandi aðgang að Mættinum, leikmenn sækja í ljósu hliðina en stjórnandi í þá myrku. Í hvert sinn sem annar aðilinn notast við Máttinn, þá eykst hann jafnframt hjá hinum. Mátturinn er þannig fyrirfram skilgreint magn af punktum sem þátttakendur geta notast við, en Máttinn má nota til að auka líkur á að aðgerð takist, að bæta aðstæður persóna eða að stjórnandi geti gert leikmönnum erfiðara fyrir með öfugum hætti. Þannig býður kerfið upp á töluvert meiri samspuna en ég hef áður séð í Star Wars kerfi.

Kerfið í heild sinni er auðlært, einna lengstan tíma tekur að læra að lesa á teningana og túlka þá. Persónusköpun er fljótleg, bardagar yfirleitt hraðir og í anda kvikmyndanna. Persónur fá reynslustig og geta fyrir þau bætt hæfni sína í hæfileikum eða keypt sérstaka kunnáttu eða talents. Heilt yfir er auðvelt fyrir leikmenn að sérsníða persónur, þannig að þær falli nákvæmlega að þeirri mynd sem þeir hafa af viðkomandi persónu í kollinum. Þá er einnig í kerfinu sérstakt undirkerfi, Obligation, sem er skilgreint af hverjum leikmanni fyrir sig og baksögu þeirrar persónu sem hann vill spila.

Edge of the Empire – Heimsmyndin

Í Edge of the Empire takast leikmenn á við hlutverk þrjóta og smyglara á borð við Han Solo, Chewbacca, Boba Fett og Lando Calrissian. Ytri tími kerfisins er skömmu eftir að fyrri Death Star er sprengd í loft upp af uppreisninni. Persónurnar eru þannig einstaklingar sem þurfa að hafa í sig og á með því að eiga í viðskiptum við ýmsa skuggalegar geimverur eða skipulögð glæpasamtök, með því að fara að ystu mörkum stjörnuþokunnar og nema ný lönd. Þannig er Edge of the Empire nær laust við Jedi, enda aðeins örfáir þeirra eftir í allri veröldinni eftir að Svarthöfði og Palpatine keisari sviku Jedi regluna og létu framkvæma skipun 66.

Keisaraveldið er þannig í örum vexti og stendur flestum mikil ógn af þessu mikla hernaðarveldi. Sífellt erfiðara er fyrir aðra kynþætti en menn að komast áfram eða finna sér góðan samastað þar sem Keisaraveldið ræður ríkjum og því leita þeir sem geta út og finna sér ábatasöm verkefni. Hutt mafíósum, Black Sun Syndicate og ýmsum öðrum minni glæpagengjum hefur þannig vaxið fiskur um hrygg og blómstrar undirheimastarfsemi hvers konar. Persónur Edge of the Empire þurfa að draga fram lífið í þessum heimi og þegar leikur hefst eru sumar þeirra jafnvel þegar orðnar kunnugar verri hliðum þess, t.d. er hægt að byrja með skuld á bakinu eða jafnvel vera eftirlýst af einhverjum óþjóðalýð, sem þýðir þá að hausaveiðarar eru að leita að viðkomandi.

Þannig flakka persónur milli pláneta, berjast við önnur dusilmenni og smyglara, hakka sig inn í tölvur Keisaraveldisins og þurfa að skjóta sér leið út úr geimstöðvum, allt á hinn framandlega en skemmtilega máta sem Star Wars býður upp á.

Heilt yfir er Edge of the Empire vel heppnuð útgáfa af Star Wars spunaspili. Auðvitað eru ýmis smáatriði sem hægt er að laga, t.d. svo þau falli betur að spilastíl hvers hóps. Ég hef spilað kerfið með bæði syni mínum og vinum hans (9-11 ára) sem og eldri og þaulreyndari spilurum (30-36 ára) og báðir hópar tóku mjög vel í samspunann og nýttu hann til að gera upplifunina enn skemmtilegri. Sem sagt, flott Star Wars spunaspil sem býður upp á fjölmarga möguleika fyrir leikmenn og stjórnendur og gerir alla leikmenn að þátttakendum í spunanum.

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: