Skip to content

Mythic Iceland – spunaspil byggt á Íslendingasögunum

Fyrir nokkrum árum gaf spunaspilaútgáfan Chaosium út spunaspilið Mythic Iceland eftir Pedro Ziviani en það var byggt á Íslendingasögunum annars vegar og hins vegar gömlum íslenskum þjóðsögum. Kerfið notaðist við BRP eða Basic Roleplaying, sem á rætur sínar að rekja til kerfisins sem spunaspilið Call of Cthulhu er byggt á. Í Mythic Iceland þá taka leikmenn að sér að spila hetjur sem eiga ýmislegt sameiginlegt með Gísla Súrssyni, Agli Skallagrímssyni eða Hallgerði langbrók og þurfa að fást við ýmis yfirskilvitleg vandamál og óvætti. Þá er einnig gert ráð fyrir því að leikmenn geti notað bókina sem viðbót við Cthulhu Dark Ages. Við tókum höfund Mythic Iceland tali og ræddum aðeins við hann um spilið.

Hvernig stóð á því að ungur maður frá Brasilíu tók upp á því að flytja til Íslands og skrifa spunaspil byggt á Íslendingasögunum, íslenskum þjóðsögum og goðsögum? Hvað er það við Íslendingasögurnar sem er svona áhugavert í augum spunaspilara?

Íslendingasögurnar hafa lengið vakið áhuga minn en þar mætast tvö ólík áhugasvið hjá mér, annars vegar sagnfræði og hins vegar miðaldabókmenntir. Ég lærði sagnfræði í háskóla og lagði þá einkum rækt við miðaldirnar og þannig komst ég í kynni við sögurnar, en þær las ég fyrst á ensku. Þegar ég hafði lesið fyrstu söguna, Njálu, þráði ég að lesa meira og las hverja á fætur annarri. Þá hafði ég verið að spila Dungeon’s & Dragons um nokkurt skeið og fékk þá flugu í kollinn um hve frábært það væri að getað spilað spunaspil sem byggt væri á sögunum. Þá fann ég ekkert slíkt, þannig ég ákvað að skrifa eitt slíkt sjálfur, svo ég gæti spilað það sjálfur.

Að mínu mati eru sögurnar stórgóður efniviður fyrir spunaspil, þar sem þar er ekki aðeins að finna ýmsar ævintýrasögur og magnaða atburði, heldur einnig baktjaldamakk, svik og pólitík í afar litríku umhverfi og samfélagi.

Þegar ég flutti til Íslands 2007 var ég nær hálfnaður með Mythic Iceland. Ég var svo heppinn að finna frábæran spilahóp stuttu eftir að ég kom og við höfum spilað saman allar götur síðan þá. Hópurinn tók þátt í að prufukeyra Mythic Iceland og hjálpuðu mér að þróa rúnagaldurskerfið, sem er kannski sá þáttur kerfisins sem ég er hvað stoltastur af.

Nú efast ég ekkert um að það taki mjög langan tíma að rannsaka og undirbúa spunaspilaskerfi sem eru byggð á sagnfræði og sögulegum staðreyndum, en hve langan tíma tók það þig að skrifa og hann Mythic Iceland?

Það tók mig um 5 ár að viða að mér heimildum og gögnum ásamt því að skrifa spilið, 5 ár frá því ég byrjaði af fullri alvöru. Það er mikil vinna fólgin í að skrifa spunaspil sem er byggt á sagnfræði og eflaust tvöfaldast hún við að blanda saman fantasíu og sagnfræði, eins og ég gerði, þar sem það getur verið erfitt að finna jafnvægi milli þessara tveggja þátta. Þrátt fyrir að þetta hafi verið mjög krefjandi og mikil vinna, þá var þetta jafnframt skemmtilegasta og áhugaverðasta verkefni sem ég hef unnið.

Eflaust hafa margir íslenskir spunaspilarar prófað að búa til sitt eigið spunaspil og jafnvel látið sig dreyma um að fá það útgefið. Spilið þitt var gefið út af Chaosium, sem er meðal virtustu útgáfna meðal spunaspilara. Hvernig gekk það fyrir sig? Var erfitt að ná athygli þeirra eða fá þá til að gefa spilið út?

Ég hef verið mikill aðdáandi Call of Cthulhu spunaspilsins frá því að ég var unglingur og var að byrja að spila og Chaosium hefur alltaf verið sú útgáfa sem ég held hvað mest upp á. Þegar ég hafði skrifað nokkra kafla af Mythic Iceland hafði ég samband við Chaosium og sendi þeim tillögu að Secrets of Iceland, bók sem gæti hentað Cthulhu Dark Ages, spunaspil sem væri byggt á Íslendingasögum og þjóðsögum en að sjálfsögðu voru Cthulhu óvættirnar nærri. Það gladdi mig mjög að heyra að þeim líkaði svo hugmyndin að þau vildu endilega að ég skrifaði heilt spunaspil byggt á Íslendingasögunum og íslenskum þjóðsögum og að það styddist við Basic Roleplaying kerfið, sem var þá nýútkomið, en með viðbótum fyrir þá sem vildu notast við spilið í Cthulhu Dark Ages.

Þau hjá Chaosium eru framúrskarandi í því sem þau gera, með mikla ástríðu fyrir góðum spilum og að vinna með þeim hefur verið mér mikil ánægja. Ég var svo heppinn að ná að sannfæra þau um að skera ekkert úr Mythic Iceland þrátt fyrir að ég skrifaði meira en helmingi meira en ráðgert hafði verið í upphafi.

Hvernig tóku spunaspilarar Mythic Iceland? Hvað sögðu gagnrýnendur? Hvað gerðirðu til að fylgja eftir útgáfunni? Fékk Mythic Iceland einhver verðlaun?

Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum mínum og ég er afar þakklátur fyrir hve góðar þær voru. Hvort sem var á bloggum, vefverslunum eða vefsíðum þá fékk Mythic Iceland mjög góða dóma sem yljaði mér um hjartarætur. Enn fæ ég senda tölvupósta og skilaboð í gegnum samfélagsmiðla frá fólki sem spilar Mythic Iceland og ég er þeim afar þakklátur.

Fyrstu verðlaunin sem Mythic Iceland vann var á síðunni Diehard gamer, en fékk það verðlaun sem best setting. Ég hef verið lesandi síðunnar í mörg ár og var mjög þakklátur fyrir verðlaunin.

Það var þó sem draumi líkast þegar Mtyhic Iceland fékk silfurverðlaun á Ennie, sem er stærsta verðlaunahátíð í spilageiranum, þá einnig fyrir best setting. Það var ótrúleg tilfinning að fara þar upp á svið við verðlaunaafhendinguna á GenCon í Indianapolis til að taka við verðlaununum og heiður að vera meðal allra þeirra ótrúlega hæfileikaríku einstaklinga sem hafa unnið Ennie verðlaun og ég hef svo lengi dáðst að.

971815_502261543184483_124400635_n

Megum við eiga von á meira efni fyrir Mythic Iceland? Hvað er næst á döfinni hjá þér?

Í augnablikinu er ég að vinna að tveimur bókum fyrir Mythic Iceland. Sú fyrri er Mythic Iceland Companion, en þar eru kynntar nýjar reglur, ítarlegri upplýsingar um heimsmyndina og fjögur ævintýri sem hægt er að spila. Seinni bókin er stórt ævintýri en þar þurfa hetjurnar að fara um allt Ísland og einnig til Noregs, Írlands, Grænlands og Vínlands. Um er að ræða langa sögu sem ætti að taka þó nokkra mánuði í spilun. Chaosium hefur þegar gefið grænt ljós á báðar bækurnar og þær eru báðar langt komnar.

Einnig hef ég undanfarin tvö ár verið að vinna að öðru verkefni og er það á lokastigum, en um er að ræða spunaspil sem kallast Folklore. Markmið spilsins er að gera nám um þjóðsögur og ævintýri ólíkra menningarheima skemmtilegt. Hugmyndin er fengin úr vinnu einstaklinga á borð við Jón Árnason, hina þýsku Grimm bræðra og margra annarra sem voru uppi á gullöld þjóðsagnafræðinga á 19. öld og söfnuðu þjóðsögum til útgáfu. Hetjurnar í Folklore ferðast þannig um sveitir og til afskekktra héraða á 19. öld, rannsaka þjóðsögur og þurfa að verja bændur og búalýð fyrir óvættum og þjóðsagnaskrímslum sem kunna að vera til í raun og veru. Spilið er hannað þannig að ekki þurfi nokkurs undirbúnings við, að hver saga eða þjóðsaga miðist við eina spilastund og að notast sé við venjulegan spilastokk fremur en teninga. Bókin mun innihalda yfir 100 þjóðsögur sem er hægt að nota í spilinu, frá fjölmörgum löndum og menningarheimum. Spilið hefur verið í prófunum hjá spilahópum víðs vegar um heiminn og ég hef fengið frábærar athugasemdir og viðbrögð og ég hlakka mjög til að sjá þetta spil komast í útgáfu.

Flokkar

Spunaspil

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: