Skip to content

D&D 5. útgáfa – kerfið rýnt

Drekar og dýflissur er eitt allra vinsælasta spunaspil frá upphafi. Nýverið kom út uppfærð útgáfa af spilinu og er þar um að ræða 5. útgáfu. Mislangt er á milli útgáfna en frá því að fyrirtækið Wizards of the Coast yfirtók TSR, sem upphaflega gaf út D&D, þá hefur kerfið verið uppfært á nokkurra ára fresti, en það hefur lagst misvel í samfélag spunaspilara. Í þetta skiptið ákvað WoTC að fá samfélagið í lið með sér og gafst spilurum færi á að prufukeyra kerfið, eða nokkurs konar beta-útgáfu af því, og skila inn athugasemdum áður en kerfið var gefið út.  Í síðustu viku fjölluðum við um persónusköpun í þessari nýju útgáfu og hvað væri nýtt og núna ætlum við að skoða kerfið sjálft. 

Allt frá því D&D kom fyrst út hefur markmið spilsins verið að gefa leikmönnum færi á að leika hetjur sem takast á við hvers kyns óvætti, dreka, tröll og illmenni af verstu sort. Hetjurnar berjast með kjafti, klóm og því sem er hendi næst hverju sinni gegn óþjóðalýðnum og hafi þær haft sigur hefur kerfið verðlaunað hetjurnar með reynslustigum og öflugum galdravopnum og -hlutum. Kjarni spilsins er því sá að leikmenn fá að taka að sér hlutverk hetja og þær hetjur verða sífellt öflugri eftir því sem þær öðlast meiri reynslu, og í grunninn er það ósk leikmanna, þ.e. að sjá persónu sína og hópinn sem hún tilheyrir ná árangri. Þannig hefur kerfið, markmið leikmanna og framsetning útgefinna ævintýra byggt undir þetta. Sú þróun hefur hins vegar verið undanfarin ár, að sífellt meiri áhersla hefur verið á bardögum og jafnvel í ákveðnum útgáfum spilsins var svo dregið úr reynslustigum fyrir annað en bardaga að eflaust hafa einhverjir spilarar vart séð tilgang í að leysa úr vandamálum með öðrum hætti en að draga sverð úr slíðrum og höggva mann og annan.

Þó að vissulega sé enn hægt að vinna sér inn reynslustig með því að berja á orkum og drýslum þá er hin nýja útgáfa töluvert opnari og hvetur leikmenn til að þess að leika persónur sínar til hins ítrasta. Kerfið verðlaunar þannig leikmenn sem spila persónur sínar í takt við persónueinkenni hennar (sjá samantekt um persónusköpun), t.d. geta hetjur orðið innblásnar og fullar hetjumóð (e. inspiration) sem eykur líkurnar á að þeim takist ætlunarverk sitt. Þetta er mjög jákvæð þróun, spunaspil er ekki eins og tölvuleikur þar sem leikmenn geta valið milli endanlegs fjölda möguleika, heldur getur útkoma einnar spilastundar haft mikil áhrif á þá næstu og mögulegar ákvarðanir hetja í raun óendanlega margar (reyndur stjórnandi reynir þó yfirleitt að sjá fyrir þær allra líklegustu og vera viðbúinn þeim).

Þær breytingar sem segja má að séu stærstar á kerfinu og leikmenn sem hafa spilað eldri útgáfur ættu að verða fljótt varir við eru tvær. Annars vegar hefur verið kynnt ný viðbót við kerfið, þ.e. kostur og ókostur (e. advantage og disadvantage). Þegar hetjur eru í góðri stöðu, eru innblásnar hetjumóði eða hafa með öðrum hætti tryggt að þær séu með alla kosti sín megin, þá mega leikmenn kasta tveimur 20-hliða teningum og velja hærri töluna til að sjá hvort aðgerð þeirra heppnist. Hið öfuga á svo við þegar hetjurnar eru í erfiðri stöðu, þreyttar eða ekki á heimavelli, ef svo mætti að orði komast, þá þurfa leikmenn að velja lægri töluna. Þessi nýjung hefur auk þess í för með sér að hinir taktísku bardagar 3. og 4. útgáfu sem fóru fram með hjálp módela, spilamótta og hvers kyns aukahluta eru ekki jafn fyrirferðamiklir og er í raun hægt að komast alfarið hjá því að nota slíka hluti og hverfa þannig aftur til enn eldri útgáfna.

Hins vegar hefur aðgerðakerfinu verið breytt nokkuð. Í 3. og 4. útgáfu gátu hetjur notað nokkrar tegundir aðgerða í hverri lotu; hreyfingaraðgerð, meginaðgerð, minniháttaraðgerð og fríar aðgerðir. Í nýju útgáfunni er búið að fella út minniháttaraðgerðir (e. minor action) en sumir galdrar eða hæfileikar leyfa hetjum að framkvæma aðgerðir sem bónusaðgerð. Í raun er þetta afturhvarf til elstu útgáfna D&D, en þar voru aðgerðir færri og einfaldari. Þetta flýtir nokkuð fyrir, því í síðustu tveimur útgáfum tóku bardagar yfirleitt upp nær allan tíma hverrar spilastundar en samt fóru ekki fram nema kannski tveir bardagar. Í nýju útgáfunni taka bardagar skemmri tíma sem gefur leikmönnum tíma til að einbeita sér frekar að frásögninni.

Ýmsar aðrar breytingar má finna í nýju útgáfunni. Þannig eru eiginleikatölur lægri en gengur og gerist í síðustu tveimur útgáfum og komið þak á þær. Eins er fjöldi lífsstiga (e. hit points) lægri, bæði meðal hetja og skrímsla, sem þýðir vissulega að fyrstu ævintýrin geta reynst mörgum hetjum afar hættuleg og jafnvel banvæn. Þá hefur einnig kerfinu í kringum hæfileikaáskoranir (e. skill challenges) verið umbylt, en nú eru allar hetjur þátttakendur og þarf helmingur hópsins að ná viðkomandi áskorun. Það er af sem áður var, að ein hetja gæti leyst úr öllum slíkum áskorunum fyrir hópinn í heild sinni, heldur þurfa hetjurnar nú allar að leggja sitt af mörkum.

Í heildina er kerfið ágætlega hugsað og líklega má rekja það til þeirrar ákvörðunar WoTC að leyfa spilurum að prófa beta-útgáfu af kerfinu áður en það kom út. 5. útgáfa minnir þannig meira í anda og hugsun á upprunalegu D&D útgáfurnar frekar en síðustu tvær, þó að margir kostir þeirra útgáfna hafi fengið að halda sér. Þannig ættu flestir D&D leikmenn að finna eitthvað að sínu hæfi en umfram allt, þá styður kerfið loksins í heild sinni við frásagnir og spuna umfram endalausa bardaga. Það er og verður helsti kostur þessarar nýju útgáfu.

Flokkar

Spunaspil

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: