Skip to content

Askur Yggdrasils – 20 ár frá útgáfu eina íslenska spunaspilsins

Síðasti áratugur 20. aldar var sannkallað blómaskeið íslenskra spunaspilara. Þá voru spunaspilabækur seldar á fleiri stöðum en eingöngu í Nexus, sem hét reyndar þá Goðsögn, t.a.m. í Eymundsson við Hlemm og spilafélagið Fáfnir var gríðarlega öflugt. Þá voru haldin spunaspilamót þar sem boðið var upp á fjölda borða á hverju tímabili og dugði ekkert minna en risastórir skemmtistaðir og salir undir herlegheitin. Þá kom einnig út eina íslenska spunaspilið, en árið 1994 gaf forlagið Iðunn út Ask Yggdrasils eftir bræðurna Rúnar Þór og Jón Helga Þórarinssyni. 

Í Aski tóku leikmenn að sér hlutverk hetja í heimi norrænnar goðafræði. Hægt var að spila allt frá lágtsettum mennskum betlara til háttsetts vana goða og allt þar á milli. Gefinn var út kassi sem innihélt tvær bækur, annars vegar bók leikmanna og hins vegar bók spunameistara, auk þess sem í kassanum voru bæði teningar og persónublöð ásamt korti af heiminum og skjá fyrir spunameistara. Óhætt er að segja að flesta íslenskir spunaspilarar frá þessum tíma hafi prófað kerfið enda vakti þetta mikla athygli meðal þessa hóps, sem þar til þá hafði eingöngu haft aðgang að spunaspilum á ensku. Kerfið var í grunninn einfalt prósentukerfi, þ.e. hetjur voru með ákveðna tölu í hæfileikum og þegar kastað var upp á aðgerðir þurfti ná undir þeirri tölu á 100-hliða teningi (sem er samsettur úr tveimur 10-hliða teningum). Sem slíkt var það ekki nýlunda en Askur bauð þó upp á ýmislegt sem margir spunaspilarar voru ekki vanir, t.d. var mikill munur á hvernig aðgerðaröð var fundin í Aski og AD&D. Einnig voru ýmis nýmæli í galdrakerfi Asks.

Við tókum annan höfunda Asks, Rúnar Þór, tali og spurðum hann aðeins út í kerfið og sögu þess.

20 ár eru liðin síðan Askur kom út. Hvernig kom þetta til á sínum tíma? Hvernig datt ykkur í hug að búa til íslenskt spunaspil?

Lýsingin í inngangi spilsins er raunar algerlega sannleikanum samkvæm. Ég hafði komist í kynni við spunaspil, eða rólplei eins og allir kölluðu þau, hjá félaga mínum Ólafi hér í Reykjavík og Jón Helgi sem hafði eytt heilmiklum tíma í leiklist fannst þetta snilldin ein um leið og hann prófaði það með okkur. Nokkru síðar, eftir mjög mörg spilakvöld hér í borginni fram eftir nóttum, vorum við bræðurnir á leið austur á land og fórum að ræða þetta í bílnum. Við spurðum okkur hvers vegna enginn hér í þessari bókmennta- og sagnaþjóð væri búinn að gera íslenskt spil. Svo ákváðum við það einfaldlega að gera það og skrifuðum alla leiðina frá Reykjavík austur á land til Egilsstaða og gáfumst aldrei upp. Þetta var vorið 1992 og spilið kom svo út fyrir jólin 1994. Ofboðslega margt átti sér stað á þessum tíma, Jón sótti nám í Noregi, ég kláraði nám á Egilsstöðum og fleira en aðalatriðið var að hætta aldrei lengi og nota frítímann í þetta uns frítíminn var allt hitt. Það var eina leiðin til að klára þetta.

Hvernig voru viðtökurnar? Tóku íslenskir spunaspilarar ykkur fagnandi eða voru þeir ekki tilbúnir að bregða út frá enskuskotinni spilamennsku til að kasta upp á reiðmennsku eða læknajurtum?

Ég man ekki betur en að spunaspilarar hafi tekið því fagnandi að íslenskt spil skuli hafa verið skrifað. Það var hrifið af textanum, andrúmsloftinu í veröldinni, guðanáðinni og siðfræðinni sem hún innleiddi og minna hrifið af smámunaseminni í hæfileikakerfinu, bardagakerfinu sem mörgum þótti of hægt og svo framvegis. Svo voru sumir hrifnir af göldrunum, aðrir vildu að við hefðum skipt kerfinu í betur upp aðgreinda flokka og persónulega er ég sammála því. Geri það næst.

Mig minnir að spunaspilarar hafi almennt verið ánægðir að hafa nú þýðingar á enskuskotnum frösum og orðum eins og til dæmis „rólplei“. Hlutverkaspil var komið en hefur aðra vísun líka. Hins vegar bjuggum við til orðiðspunaspil í litlu hornherbergi á Skriðuklaustri. Það eru fjölmörg þannig augnablik, litlir sigrar, sem gera svona verk gefandi og – að ég held – ástæðan fyrir því að við erum enn að tala um Askinn 20 árum eftir útgáfu hans og að fólk sé enn að spila hann hér og þar.

askur1

Nú fylgdi ævintýrið Heljarniður kassanum og eflaust hafa nær allir sem á annað borð spiluðu Ask farið í gegnum það. Var aldrei ráðgert að gefa út fleiri ævintýri eða bækur um heimsmyndina? Ef já, hvað þá helst og hvað stóð í vegi fyrir þær bækur kæmu út?

Jú, við skrifuðum langt ævintýri árið eftir sem heitir Augu Mímis og við höfum báðir spilað það með hinum og þessum hvor í sínu lagi. Það sem kom hins vegar fyrir árið 1995 var að Jón var bundinn yfir öðru úti í Noregi og ég lenti í slysi og meiddist á hægri hönd sem kom í veg fyrir að gæti gert nokkuð af viti frá því í apríl fram í september og þótt ég skrifaði ég það upp með annarri hendi um sumarið, tókst mér ekki að fylgja því eftir.

Þar fyrir utan er mjög dýrt að gefa út bækur á Íslandi í samkeppni við annað og erfitt að fá sanngjörn laun fyrir vinnuna. Spunaspilið Askur varð því miður ekki eins vinsælt árið 1995 og hefði þurft til að gefa út ævintýrið og halda áfram að bæta við heiminn, en yfir langan tíma hefur leikmönnum Asks þó fjölgað og fólk er enn að spila þetta og þykir okkur Jóni gríðarlega vænt um það.

Því er ekki að neita að við fáum fjölda áskorana að gefa þetta út aftur og auðvitað langar okkur að taka tímann sem þarf til að sníða vankantana af og skila þessu af okkur í 20 ára viðhafnarútgáfu. Ég spila reglulega með fjölskyldunni, gömlum vinum og nýjum, til dæmis hef ég nýverið eignast nýja félaga í gegnum spunaspilun.

Málið er að með svona fyrirbæri sem örva sjálfstæða hugsun og fantasíu, þá koma út bækur sem byggjast á þessu hvort sem við vitum af þeim eða ekki, t.d. maður sem ég kynntist í vetur, Friðrik Þór Gestsson sem skrifaði á aldrinum 15 til 25 ára bókina „Sagan af Santýrnum“ sem er yfir eitt þúsund blaðsíðna fantasía og byggði hana algerlega á ævintýrum sínum í Askinum yfir 10 ára tímabil. Hversu frábært er það?

Svo eru líka útgáfur ens og spilið Mythic Iceland kom út á ensku fyrir 2 árum og er að ýmsu leyti byggt á Askinum. Reyndar er það sumstaðar of mikið byggt á Askinum, en ýmislegt sem við skrifuðum og fundum upp á er tekið bókstaflega upp eftir okkar texta sem er auðvitað ekki gott. Sá hópur Íslendinga sem unnu fyrir ritstjórann hefðu heldur átt að hafa samband við okkur en að gera þetta. Sjálfsagt fannst þeim þeir vera að byggja á okkar vinnu en ekki afrita en svona er þetta. En málið er að ég er ekki hissa á að menn langi til að skrifa inn í þennan heim, því hann er flottur og með dálitlu viðbótarímyndunarafli verður hann algerlega stórkostlegur.

Heimsmynd norrænnar goðafræði er mörgum hugleikin, t.d. hafa komið út heilu furðusagnabálkarnir byggðir á henni, hvers vegna völduð þið að notast við hana í Askinum í stað þess að búa til algjörlega nýjan heim?

Það lá bara í augum uppi. Goðsagnir og ævintýri norrænna manna hafa bókstaflega allt sem þarf, við vorum vel að okkur og hún var mjög opin fyrir viðbótum og breytingum sem okkur datt í hug.

Er ráðgert að fagna afmælinu með einhverjum hætti? Verður Askur endurútgefinn eða uppfærður af því tilefni?

Hvernig væri það? Já – Okkur langar og við ráðgerum en landslagið er mjög breytt í útgáfunni, fjölmargir frábærir skemmtanakostir hafa litið dagsins ljós, t.d. internetið og það er vinur okkar! Hvernig væri að nota það til að kanna áhuga fólks á endurútgáfu Asks, Karolinafund og aðrar crowd-funding síður gefa manni möguleika á að gera hluti sem ekki var hægt að gera áður. Við bræðurnir erum fjölskyldufólk og höfum verk að vinna þar fyrir utan en það væri vissulega gaman ef við Jón fyndum flöt á tilverunni þar sem væri að skilja við Askinn í því ástandi sem hentar betur til framtíðar.

Það verður spennandi að sjá hvort íslenskir spunaspilarar hafi áhuga á að fá uppfærða útgáfu af Aski Yggdrasils en aðdáendur spilsins stofnuðu fyrr í vetur aðdáendasíðu á Facebook og má hana finna hér. Fyrr í vetur dró ég fram kassann og spilaði í gegnum Heljarnið með spilahóp barnanna minna og það var stórgóð skemmtun. Þau kunnu vel að meta heimsmyndina og kerfið að miklu leyti aðgengilegt. Einna best fannst þeim þó að vera með persónublöð á íslensku, enda enskukunnátta þeirra ekki jafn sterk og hjá eldri spilurum. Þó ekki væri fyrir aðrar sakir þá er Askur stórgóð viðbót við spunaspilaflóruna og þó að erfitt sé að komast yfir eintök af spilinu nú til dags er gott að nýir spunaspilarar viti af þessum möguleika.

Auglýsingar

Thorsteinn Mar Skoða allt

Thorsteinn has for long sailed the Astral Sea, eager to broadcast his heretical gospel to the uninitiated.

Segðu okkur hvað þér finnst

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: